Handverkshúsið   |   Dalvegi 10-14, 201 Kópavogi  |   Sími: 555-1212  

Dóra G. Jónsdóttir
60 ár í bransanum gerir Dóru að holdgervingi víravirkis á Íslandi

Dóra nam gull- og silfursmíði á verk-stæði föður síns, Jóns Dalmannssonar, á árunum 1949-53 og lauk sveinsprófi árið 1954. Hún Dóra hélt einnig utan til náms á því tímabili og nam við Lýðháskólann í Tarna í Svíþjóð, lærði gullsmíði við Konstfackskolan í Stokkhólmi árið 1950 og leturgröft á verkstæði í borginni. Framan af starfsferli sínum starfaði Dóra sem gull- og silfursmiður á verkstæði föður síns eða til ársins 1970 þegar hún tók við rekstri fyrirtækisins. Árið 1976 flutti Dóra starfsemi sína á Frakkastíg og stofnaði Gullkistuna og þar hefur hún selt Reykvíkingum skart í 40 ár. Gullkistan hefur sérhæft sig í gerð þjóðbúningasilfurs og má þar finna allan þann búnað sem tilheyrir íslenskum þjóðbúningi og fleira til. Dóra er fær og mikilvirkur gullsmiður og beitir af þekkingu þeim aðferðum íslenskir gullsmiðir hafa þróað með sér í aldanna rás. Hún vinnur jöfnun höndum í gull og silfur, notar íslenska steina og vinnur með tækni s.s. sandsteypu og þeytisteypu, útsögun og formun í gerð skartgripa sinna. Hún vinnur einnig gripi með loftverki og víravirki, tækni sem einkennir íslenskt búningasilfur. Dóra gerðist félagi í Þjóðdansafélagi Reykjavíkur 1951 og gegndi þar formannsstöðu árin 1962-64. Hún er sérfróð um íslenska búninga, var fulltrúi FÍG í Samstarfsnefnd um íslenska búninginn og hefur verið fulltrúi Þjóðdansafélags Reykjavíkur í Þjóðbúningaráði frá árinu 2001. Hún var formaður FIG frá 1974-75, fyrst kvenna á Norðurlöndum til að gegna þeirri stöðu. Upphlutsborðar, millur beltispör, beltisdoppur, stokkabelti, skúfhólkar, ermahnappar, brjóstnælur, húfuprjónar, hringar - eru meðal þeirra muna sem Dóra hannar og framleiðir á verkstæði sínu. Dóra smíðar einnig búningasilfur eftir eldri frumgerðum, til dæmis eftir mynstrum og gripum á Þjóðminjasafni. Dóra hefur tekið virkan þátt í sýningum innanlands sem utan. Jafnframt kappkostar hún að setja þjóðlegt handverk í nýtt samhengi og tengja það við tískustrauma nútímans. Þar fer saman vilji til að gera tilraunir með ólík efni og haldgóð þekking á formi, gerð og mynstrum frá fyrri tímum. Nánari upplýsingar um sýningu Dóru í Árbæjarsafni og ráðstefnuna má finna á www.buningurinn.is


Öll námskeið þessa leiðbeinanda